PAA Baths x Karim Rashid
Baðbirginn okkar, PAA Baths, kynnti á dögunum tvær nýjar vörulínur í samstarfi við hinn þekkta hönnuð Karim Rashid. Rashid er þekktur fyrir framúrstefnulega og litríka hönnun og hefur meðal annars hannað fyrir merki eins og Alessi, Hugo Boss, Issey Miyake, Kenzo, Veuve Cliquot og svo mætti lengi telja. Þá hefur hann hlotið yfir 400 verðlaun fyrir hönnun sína, svo sem Red Dot verðlaunin.
Fyrri vörulínan nefnist Pointe og vísar til lögunar hins klassíska balletskós. Þannig vill Rashid votta dóttur sinni og ballerínum um heim allan virðingu sína. Mjúkar línur og falleg lögun baðkarsins tryggja hámarks þægindi, og háar brúnir aðskilja þig frá amstri hversdagsins. Einnig hannaði Rashid vask í stíl í svipaðri lögun.
Síðari vörulínan nefnist Alba sem er ítalska orðið fyrir dögun. Hið kringlótta form baðkarsins minnir á sólina, og karið er öðruvísi að því leiti að þú situr uppréttur, í fullkominni stöðu til að kyrra hugann eða jafnvel lesa góða bók og taka á móti nýjum degi. Vaskurinn í Alba línunni er svo einkar óvenjulegur, þar sem formið fer úr ferköntuðu yfir í kringlótt.
Báðar vörulínurnar koma í fimm mjúkum og fallegum litum, en hægt er að skoða þær nánar á heimasíðu framleiðandans, www.paabaths.com.




